Grein sem birtist í Skessuhorni um jólin 2009
Síversnandi tannheilsa barna og unglinga hefur verið ofarlega í huga mínum og reyndar margra tannlækna undanfarin misseri. Reglugerðarfargan sjúkratrygginga og pólitísk óstjórn í þessum málaflokki undanfarinn áratug hefur orðið þess valdandi að tannheilsa þeirrar kynslóðar sem nú vex úr grasi er miklu verri en jafnaldra þeirra í nágrannalöndum okkar. Sá frábæri árangur sem náðist á árunum 1986-1996 í fækkun tannskemmda um 80% hefur að miklu leyti gengið til baka og tannátustuðull vaxið hratt síðan þá.
Jafnt og þétt hefur verið dregið úr endurgreiðslum hins opinbera til tannlækninga barna og virðist þessi hópur engan málsvara hafa í okkar velmegunarþjóðfélagi. Börnum er mismunað hvað varðar aðgengi að tannheilsugæslu eftir efnahag foreldra/aðstandenda. Mörg þeirra skila sér illa eða alls ekki til eftirlits hjá tannlæknum. Afleiðingarnar eru öllum sem vilja sjá; skelfilegar. Augljóst er og hefur reyndar verið lengi að endurskoða þarf endurgreiðslukerfi sjúkratrygginga og koma því til nútímans. Hingað til hefur ríkt ótrúlegt skilningsleysi, áhugaleysi og andleysi varðandi þessi mál í hinu háa heilbrigðisráðuneyti.