Greinar og blogg

Grein sem birtist í Skessuhorni um jólin 2009

Sample image

Síversnandi tannheilsa barna og unglinga hefur verið ofarlega í huga mínum og reyndar margra tannlækna undanfarin misseri. Reglugerðarfargan sjúkratrygginga og pólitísk óstjórn í þessum málaflokki undanfarinn áratug hefur orðið þess valdandi að tannheilsa þeirrar kynslóðar sem nú vex úr grasi er miklu verri en jafnaldra þeirra í nágrannalöndum okkar. Sá frábæri árangur sem náðist á árunum 1986-1996 í fækkun tannskemmda um 80% hefur að miklu leyti gengið til baka og tannátustuðull vaxið hratt síðan þá.

Jafnt og þétt hefur verið dregið úr endurgreiðslum hins opinbera til tannlækninga barna og virðist þessi hópur engan málsvara hafa í okkar velmegunarþjóðfélagi. Börnum er mismunað hvað varðar aðgengi að tannheilsugæslu eftir efnahag foreldra/aðstandenda. Mörg þeirra skila sér illa eða alls ekki til eftirlits hjá tannlæknum. Afleiðingarnar eru öllum sem vilja sjá; skelfilegar. Augljóst er og hefur reyndar verið lengi að endurskoða þarf endurgreiðslukerfi sjúkratrygginga og koma því til nútímans. Hingað til hefur ríkt ótrúlegt skilningsleysi, áhugaleysi og andleysi varðandi þessi mál í hinu háa heilbrigðisráðuneyti.

Undirritaður tók þátt í hjálparstarfi tannlækna fyrr á þessu ári. Raunalegt var að sjá biðstofu tannlækndeildar Háskóla Íslands fyllast á nokkrum mínútum af börnum sem þangað leituðu,laugardag eftir laugardag. Ekki vantaði að þangað komu einnig til að kynna sér þessi mál heilbrigðisráðherra,þingmenn, starfsmenn barnaverndarstofu, borgarstjórnarfulltrúar svo einhverjir séu tíndir til. Þetta fólk sem á einn eða annan hátt á að koma að velferð barna laust upp einum rómi að svona gengi þetta ekki, þetta ástand væri öldungis ófært og ekki líðandi í okkar velferðarþjóðfélagi, eitthvað yrði að gera sem allra fyrst til að fyrirbyggja þetta hörmungarástand. Ekkert hefur heyrst í þessu fólki síðan og engar úrbætur í augsýn; það er greinilega fljótt að gleyma.

Formaður Tannlæknafélags Íslands, Sigurður Benediktsson tannlæknir, hefur skoðað fjárlög ríkisins til tannlækninga og kemur þar fram að sl. 8-10 ár hefur verið afgangur af fjárlögum ætlaður til endurgreiðslu á tannlækningum. Ef afgangur hvers árs er lagður saman, án þess að uppreikna m.v. verðlag, eru rétt tæplega 500 milljónir í afgang síðan 2001 og ljóst að afgangur fyrir árið 2009 verður síst minni en undanfarin ár. Það er náttúrulega með hreinum ólíkindum að hundruðir milljóna sem ætlaðar voru í þennan málaflokk eru ónýttar á sama tíma og tannskemmdum og töpuðum tönnum fjölgar með ógnarhraða. Ein helsta ástæða þess að ekki tekst að nýta þessa fjármuni er eflaust sú að endurgreiðslan er orðin svo smánarlega lítil að efnaminni foreldrar treysta sér ekki til að koma með börn sín til eftirlits,forvarna og meðferðar hjá tannlæknum.

Eitt lítið dæmi vil ég nefna um gegndarlausan niðurskurð á endurgreiðslum. Árið 1989 greiddi Tryggingastofnun ríkisins 6.235 krónur vegna hefðbundis eftirlits og forvarna (skoðun, röntgenmyndir og flúorpenslun) hjá tannlæknum. Í dag er þessi upphæð 5.418 krónur og hefur þannig lækkað um 817 krónur á 20 árum! Heilbrigðar og fallegar tennur og bros er ómetanlegt og frábær fjárfesting til framtíðar. Það vita þeir sem hafa reynt annað.

Með jólakveðjum, Jónas Geirsson tannlæknir, Akranesi.